Ýmsar upplýsingar
Svefn, nesti og útivistarfatnaður
Börn og unglingar þurfa meiri svefn en fullorðnir. Börn í yngri deildum grunnskóla þurfa að jafnaði 10-12 tíma svefn og þau sem eldri eru þurfa 9-10 tíma. Svefn er börnum og unglingum mjög mikilvægur með tilliti til almenns þroska og náms. Ef svefn er ónógur minnkar athygli og geta til að taka þátt í námi og starfi.
Skóladagur nemenda er langur, mikilvægt er að borða reglulega og fá hollan og góðan mat að jafnaði.
Foreldrum er boðið upp á að kaupa nesti fyrir börnin sín á skólatíma.
Nemendur í leikskóladeildinni fara að öllu jöfnu í útiveru daglega. Í grunnskóladeildinni fara nemendur út á skólalóð í frímínútum og er óheimilt að fara út af skólalóð á skólatíma.
Nemendur eiga að vera vel klæddir í samræmi við veður. Skólareglur gilda um snjókast á skólalóðinni.
Útivistartími
Að gefnu tilefni viljum við vekja athygli á því að í barnaverndarlögum nr. 80/2002 er fjallað um ÚTIVISTARTÍMA BARNA. Þar segir m.a.:
- Börn yngri en 12 ára mega ekki vera úti eftir kl. 20:00 frá 1. september til 1. maí, nema í fylgd með fullorðnum, og ekki eftir kl 22:00 frá 1. maí til 1. september.
- Börn 13 ára til 16 ára, skulu ekki vera úti eftir kl 22:00 frá 1. september til 1. maí nema í fylgd með fullorðnum og ekki eftir kl 24:00 frá 1. maí til 1. september.
Undantekning er frá þessari reglu ef um er að ræða samkomu á vegum skóla eða félagsmiðstöðvar.
(Sjá: http://www.landlaeknir.is/Pages/519)
Persónulegir munir
Skólinn tekur enga ábyrgð á persónulegum munum nemenda. Mikilvægt er því að nemendur komi ekki með peninga í skólann að þarfa lausu eða skilji verðmæti eftir í fötum sínum í fatahengjum eða í búningsklefum.
Tryggingar og tjón
Ef nemandi slasast eða verður fyrir meiðslum í skóla á skólatíma, á skólalóð á skólatíma og í ferðum/ferðalögum á vegum skólans þá greiðir skólinn reikninga vegna komu þeirra á slysadeild. Tjón á eigum nemenda, s.s. fatnaði, gleraugum o.þ.h. er ekki bætt nema það verði rakið til mistaka starfsmanna sem við skólann starfa eða vegna vanbúnaðar skólahúsnæðis.
Allir nemendur skólans eru slysatryggðir en persónulegir munir nemenda eru ekki tryggðir. Það er því nauðsynlegt að brýna fyrir nemendum að skilja ekki verðmæti eftir þar sem ekki er hægt að hafa eftirlit með þeim. Ef nemandi veldur vísvitandi skemmdum á eigum skólans eða þeirra sem þar starfa, er hann bótaskyldur.
Mötuneyti
Mötuneyti er rekið í Félagsheimilinu á Borg og þjónustar það leik- og grunnskóladeild Kerhólsskóla, starfsmenn sveitafélagsins, eldri borgara og aðra kostgangara í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Mat fá nemendur á kostnaðarverði og greiðist hann mánaðarlega samkvæmt reikningi. Matseðlar eru gerðir fyrir hvern mánuð í senn og eru settir á forsíðu heimasíðu skólans í upphafi hvers mánaðar. Stuðningsfulltrúar annast gæslu nemenda í matartímum. Allir nemendur Kerhólsskóla eru í hádegismat í mötuneyti skólans nema foreldrar biðji um annað. Greiðslur eru innheimtar í gegnum heimabanka forráðamanna. Matráðar vinna samkvæmt matarstefnu skólans og sveitarfélagsins þar sem áhersla er lögð á hollan og fjölbreyttan mat.
Matarstefna
Matarstefna Kerhólsskóla er södd og sæl börn. Í Kerhólsskóla er lögð rík áhersla á ferskt, næringarríkt og fjölbreytt hráefni. Notað er gróft mjöl og korn s.s. heilhveiti og hýðisgrjón. Hrásykur, hunang og önnur holl sæta leysir hvítan sykur að mestu leyti af. Boðið er upp á hreinar, ófituskertar mjólkurafurðir og íslenskt smjör sem viðbit. Lífrænt og/eða vistvænt. Leitast er eftir því að vera með sem mest af lífrænu og vistvænu hráefni. Aukaefni eins og M.S.G. er ekki notað í Kerhólsskóla.
Skólabókasafn
Í skólanum er ágætlega útbúið barnabókasafn og einnig er þar gott handbókasafn. Skólabókasafnið er opið á skólatíma alla virka daga. Nemendur hafa því góðan aðgang að heimildum, en ef eitthvað vantar upp á, er hægt að leita til Bókasafns Árborgar á Selfossi. Í Kerhólsskóla er áhersla lögð á frjálsan lestur, t.d. í upphafi hvers dags og heima. Bókasafnið er tengt Landskerfi bókasafna – Gegnir.is.
Íþróttamiðstöð
Við hlið grunnskólans er glæsileg íþróttamiðstöð. Þar er mjög góður íþróttasalur sem hentar skólaíþróttum vel. Í íþróttamiðstöðinni er einnig sundlaug, heitir pottar, rennibraut og gufubað. Aðstaðan er öll til fyrirmyndar og frábært að hafa svona fína kennsluaðstöðu alveg við skólann. Það er mjög mikilvægt að nemendur gleymi ekki að hafa með sér íþróttaföt, sundföt og handklæði í íþróttatíma. Það er skylda hjá grunnskólanemendum að fara í sturtu að íþróttatíma loknum. Ef nemandi getur af einhverjum ástæðum ekki farið í íþróttir, sund eða sturtu þarf foreldri að hringja í ritara skólans og fá leyfi fyrir barnið sitt. Skólareglur gilda bæði í íþróttahúsinu og í sundlauginni.
Miðlun upplýsinga
Hér inn á heimasíðu skólans er að finna allar helstu upplýsingar um skólann, s.s. skólanámskrá, skóladagatal, matseðla, myndir af starfi, viðburðum, tilkynningum og ýmsum eyðublöðum.
Yfirumsjón með heimasíðunni hefur ritari skólans, í samvinnu við aðstoðarskólastjóra. Kerhólsskóli notar upplýsingakerfið Mentor.is. Foreldrar fá send sérstök notendanöfn og lykilorð til að komast inn á svæði barna sinna þar sem þeir geta fylgst með ástundun þeirra, nálgast stundatöflur, nafnalista o.fl. Ef foreldrar hafa týnt lykilorði geta þeir farið á heimasíðu Mentor og fengið nýtt eða haft samband við skólann.
Samstarf leik- og grunnskóladeildar
Mikil samvinna og samstarf er á milli deilda innan skólans. Útinám og samverustund er á sama tíma fest inni á stundatöflu beggja deilda þar sem þau leysa ýmis verkefni saman eða í sitt hvoru lagi. Ritmál og tölur eru höfð sýnileg um leið og unnið er með barnið sjálft í umhverfi sínu. Elsti hópur leikskóladeildar fer einnig til list- og verkgreinakennara einu sinni í viku ásamt því að fara eina kennslustund í íþróttir með íþróttakennara.
Reynsla okkar undanfarin ár er sú, að 5 ára börnin komi betur undirbúin, óhrædd og full tilhlökkunar í 1. bekk eftir að hafa fengið þessa aðlögun heilan vetur. Þau þekkja bæði nemendur, starfsmenn og skólaumhverfið sem er mikill kostur.
Helstu markmið eru að:
-
stuðla að markvissu samstarfi leik- og grunnskólans
-
skapa samfellu milli skólastiga
-
auðvelda leikskólabörnum skólabyrjun í grunnskólanum
-
koma til móts við mismunandi þroska barna
Árshátíð grunnskóladeildar
Árshátíðin er árviss viðburður. Fyrir árshátíðina fer mikill tími í ýmsan undirbúning, s.s. leik-, söng- og eða dansæfingar og ekki síst leikmunagerð. Með árshátíðinni er verið að samþætta hinar ýmsu list- og verkgreinar, íslensku og lífsleikni. Árshátíðin er gjarnan sá þáttur skólastarfsins sem stendur upp úr í huga nemenda, foreldra og starfsmanna ár hvert.
Danssýning Kerhólsskóla
Samkvæmt stundartöflu eru 1.-4. bekkur í dansi. Stefnt verður að því að halda eina danssýningu á ári með nemendum, hvort sem það er sér danssýning eða hluti af árshátíð Kerhólsskóla.
Þróunarverkefni
Aðal áherslan í Kerhólsskóla er að öllum börnunum líði vel svo þau nái að þroskast og dafna og fái að læra á sínum hraða. Það gerum við með því að einstaklingsmiða allt nám. Ýmis verkefni eru í gangi í Kerhólsskóla:
Dyggðakennsla er þróunarverkefni leikskóladeildar Kerhólsskóla. Þar eru teknar fyrir dyggðir eins og vinsemd, traust, þolinmæði, hjálpsemi, virðing o.fl.
Vináttu verkefni er forvarnarverkefni, til að koma í veg fyrir einelti. Þetta verkefni er ætlað 3-8 ára börnum. Þetta verkefni hvetur börnin til að segja frá atvikum og hvernig þeim líður t.d. ,,nei ég vil ekki”, ,,hættu ég vil þetta ekki” (að stoppa aðra með því að segja hættu/stop), eða að segja frá einhverju sem hefur komið fyrir þau eða einhvern annan.
Tákn með tali sem notað er til málörvunar í leikskóladeildinni og yngstu bekkjum grunnskóladeildar.
Lubbi er lestrar hundurinn sem hjálpar okkur með hljóðkerfisvitundina.
ART kennsla er í grunnskóladeildinni þar sem félagsfærni, sjálfstjórn og fleiri þættir eru þjálfaðir.
Uppeldi til ábyrgðar (e. restitution) er uppeldisaðferð sem notuð til að hvetja börn til sjálfskoðunar á eigin hegðun og taka ábyrgð á sjálfum sér.
Grænfánaverkefnið þar sem umhverfissáttmáli Kerhólsskóla er lagður til grundvallar.
Foreldrasamstarf
Starfsmenn Kerhólsskóla leggja mikla áherslu á gott samstarf við foreldra. Foreldrar leik- og grunnskóladeildar eru ávallt velkomnir að heimsækja skólann þegar kennsla stendur yfir, kíkja á börnin sín við leik og starf og þiggja kaffibolla með starfsfólki.
Tónlistarskóli Árnesinga
Tónlistarskóli Árnesinga starfar í Kerhólsskóla. Hjörtur Hjartarson tónlistarkennari sér um kennsluna. Kennslan fer fram í kennslustofu tónslistarnáms á mánudögum.
Skráning í hljóðfærakennslu fer fram í gegnum Tónlistarskóla Árnesinga. Foreldrar þurfa að greiða fyrir þessa þjónustu en hún er niðurgreidd af sveitarfélaginu í gegnum framlög til Tónlistarskólans og bendum við á tómstundarstyrk sveitafélagsins í því tilefni. Hægt er að velja um annars vegar hálft nám sem er 30 mínútur á viku og hins vegar heilt nám sem er tvisvar sinnum 30 mínútur á viku. Takmarkaður fjöldi kemst að í þetta nám.
Þess má geta að tónlistarskólanemendur hafa verið mjög duglegir að spila við ýmis tilefni í skólanum.
Nemendur sem þurfa að fara úr bóknámstíma í tónlist, gætu þurft að vinna námsefnið upp heima
Foreldrar þurfaað hringja í Tónlistarskólann ef fengið er frí í tónlistarnámi þar sem Tónlistarskólinn er ekki á vegum Kerhólsskóla.
Tónsmiðja Suðurlands
Nýlega var skrifað undir samstarfssamning á milli Grímsnes- og Grafningshrepps og Tónsmiðju Suðurlands.
Meginmarkmið sveitarstjórnarinnar með þessum samningi er að styrkja, efla og auka fjölbreytni í tónlistarnámi í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Með þessum samningi býðst nemendum Kerhólsskóla nú að stunda niðurgreitt tónlistarnám í tveimur tónlistarskólum, annars vegar hjá Tónsmiðju Suðurlands og hins vegar Tónlistarskóla Árnesinga.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér tónlistarnám eða sækja um tónlistarnám er bent á að skoða heimasíður skólanna og vera í beinum samskiptum við skólanna:
Tónsmiðja Suðurlands: http://tonsmidjan.net/skoli/
Tónlistarskóli Árnesinga: https://www.tonar.is/
Kennsla fer fram á skólatíma hjá Tónlistarskóla Árnesinga og einnig hjá Tónsmiðju Suðurlands ef lágmarksfjöldi nemenda næst.