top of page

Skólaheilsugæsla

Heilsugæsla Kerhólsskóla heyrir undir Heilsugæslustöðina í Laugarási og sinnir hjúkrunarfræðingur heilsugæslunnar henni. Hjúkrunarfræðingur kemur samkvæmt áætlun aðra hverja viku, á mánudögum.

Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að börn fái að vaxa, þroskast og stunda nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Ólíkt öðru starfsfólki skólans eru skólahjúkrunarfræðingar, skólalæknar og sjúkraliðar starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og geta því verið kölluð þangað fyrirvaralaust. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra / forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

 

Ábyrgð skólahjúkrunarfræðings

Skólahjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á skólahjúkrun í þeim skóla sem hann starfar við. Hann vinnur samkvæmt lögum, reglugerðum og tilmælum sem varða starf hans.

 

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar

1. bekkur

Sjónpróf, heyrnapróf, hæðarmæling og þyngdarmæling. Börnum sem ekki hafa farið í 5 ára skoðun, er vísað til heilsugæslustöðvar.

 

4. bekkur

Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling.

 

7. bekkur

Sjónpróf, hæðarmæling, þyngdarmæling og athugun á litaskyni. Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta).

 

9. bekkur

Sjónpróf, hæðarmæling, þyngdarmæling og blóðþrýstingsmæling. Bólusett gegn barnaveiki, kíghósta, stífkrampa og mænusótt.

 

Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til.

 

Skólaheilsugæsla fylgist einnig með því að börn hafi fengið þær bólusetningar sem tilmæli landlæknis segja til um. Ef börn hafa ekki fengið fullnægjandi bólusetningar verður haft samband við foreldra.

 

Fræðsla / heilbrigðishvatning / forvarnir

Skólaheilsugæsla sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Öll tækifæri sem gefast eru nýtt til að fræða nemendur og vekja þau til umhugsunar og ábyrgðar á eigin heilbrigði. Innihald fræðslunnar fer eftir aldri barnanna. Foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf skólaheilsugæslunnar varðandi vellíðan, andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði barnsins.

Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur meðal annars fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldra. Börn skulu ekki hafa nein lyf undur höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum og eiga þá foreldrar/ forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma að hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma. Ekki eru gefin verkjalyf í skólanum. Foreldrar eru beðnir um að hafa það í huga og gera viðeigandi ráðstafanir sé þörf á því.

 

 

Lús

Lúsin er lífseig og skýtur alltaf reglulega upp kollinum yfir skólaárið og því mikilvægt að foreldrar kembi hár barna sinna reglulega, t.d. vikulega. Til þess að ráða niðurlögum hennar er nauðsynlegt að meðhöndla málið ekki sem feimnismál. Það er ekki hlutverk skólahjúkrunarfræðinga að kemba hár barna. Hlutverk þeirra er að fyrirbyggja lús, ráðleggja, styrkja og leiðbeina þegar lús greinist hjá barni. Það er foreldra / forráðamanna að sjá um að fylgjast með hári barna sinna og meðhöndla ef lús greinist. Finnist eitthvað athugavert, er mikilvægt að tilkynna það tafarlaust í skólann (hjúkrunarfræðingur / ritari / kennari) og láta einnig þá sem barnið umgengst mest, vita. Komi upp lús í árgangi eru skilaboð send heim með börnunum í þeim árgangi og kembiáætlun sett í gang. Mjög mikilvægt er að fylgja þessari áætlun, því öðruvísi tekst ekki að útrýma lúsinni. Börnum í öðrum árgöngum er ekki gert viðvart, nema sérstök ástæða þyki til. Hjúkrunarfræðingur heldur skrá yfir lúsatilfelli og er þess gætt að nafn barnsins sem smitaðist komi hvergi fram.

Njálgur

Njálgur (Enterobius vermicularis) Njálgur er hringormur sem er algengur um allan heim, einkum í tempraða beltinu og er algeng sýking hjá fólki á öllum aldri, einkum meðal barna. Njálgur er ekki talinn valda hýslinum beinu líkamlegu tjóni. Njálgur er skráningarskyldur sjúkdómur.

Smitleiðir:

Sýking verður þegar njálgsegg eru innbyrt í meltingarveg eftir að hafa borist í munn með höndum. Börn eru líklegri en fullorðnir til að fá sýkinguna því þau eru líklegri til að handleika jarðveg og aur og setja fingurna í munninn án þess að hafa þvegið hendur sínar fyrst. Sjálfssýking verður þegar egg berast í munn með höndum sem hafa klórað á endaþarmssvæði. Smit berst auðveldlega milli fjölskyldumeðlima og leikfélaga eftir snertingu við mengaðan fatnað eða sængurföt. Í einhverjum tilfellum geta einstaka egg orðið loftborin og komist þannig í munn og í meltingarveg með kyngingu.

Lífsferill:

Eftir að eggin hafa verið innbyrt klekjast þau út í smágirninu og þróast þar yfir í fullorðin dýr og færa sig síðan í ristilinn. Allur lífsferillinn er talinn vera 4-6 vikur, að meðaltali 30 dagar. Í útliti er njálgur hvítur, lítill og viðkvæmur þráðormur. Fullorðið kvendýr er 8-13 mm langt og 0,5 mm þykkt. Fullorðið karldýr er 2-5 mm langt og 0,2 mm þykkt. Eftir kynmök drepst karldýrið en kvendýrið flytur sig niður í endaþarminn. Þar fer hún út á yfirborðið, vanalega að nóttu til og verpir miklu magni af eggjum á svæðið umhverfis endaþarminn. Eggin eru hálfgegnsæ með þykka skel með flatri hlið og ekki greinanleg með berum augum. Eftir varpið gefur hún frá sér efni sem veldur miklum kláða og hvetur til að hýsillinn klóri sér á svæðinu og flytji þannig eitthvað af eggjunum á fingurna. Eggin geta einnig borist yfir í fatnað, rúmföt, leikföng og í umhverfið. Eggin geta lifað í 2-3 vikur utan líkamans. Í sumum tilfellum klekjast egg út á svæðinu umhverfis endaþarminn og skríða lirfurnar inn um endaþarminn, upp ristilinn og upp í smágirnið þar sem þær þroskast áður en þær fara aftur niður í ristilinn.

Kláðamaur

(Sarcoptes scabiei) Kláðamaur er algengur um allan heim. Aukning kláðamaurasmits á sér stað í árvissum bylgjum og er algeng sýking hjá börnum og ungu fólki en getur sýkt fólk á öllum aldri. Kláðamaurasmit er algengara í þéttbýli en dreifbýli og algengara á veturna en á sumrin. Kláðamaursmit er skráningarskyldur sjúkdómur.

Lífsferill:

Kláðamaur er húðmaur 0,35 mm langur. Kvenmaurinn grefur sig inn í húðþekjuna og verpir þar eggjum. Lirfur klekjast út á nokkrum dögum og grafa ný göng í húðþekjuna þar sem þær hafast við þar til þær eru fullþroska. Þróun frá eggi þar til maurinn er fullþroska tekur 10-15 daga en maurinn lifir í 4-6 vikur.

Einkenni smits : Algengasta einkennið er kláði og er það mest áberandi á nóttunni á meðan hýsillinn er í rúminu. Kláðinn kemur 2-6 vikum eftir smitun og kemur samfara útbrotum. - Útbrot eru samhverf og eru vanalega litlar rauðar bólur en einnig sjást stundum blöðrur eða hnökrótt þykkildi. Útbrotin eru vanalega mest áberandi á innanverðum lærum, holhöndum, kringum nafla, á rasskinnum og við kynfæri. - Erfitt getur verið að greina fylgsni maursins í húðþekjunni því gangarnir aflagast eða eyðileggjast þegar húðin er klóruð. Algengast er þó að finna þá á milli fingra, á úlnliðum og olnbogum og líta þeir út eins og fínar, hlykkjóttar, gráleitar, dökkar eða silfurlitar línur 2-15 mm langar. Einnig má greina þetta á ökklum, fótum, á kynfærum (karla) og á geirvörtum.

Frekari upplýsingar er að finna á vef landlækni:

 

 http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item25136/Kladamaur,%20lus%20og%20njalgur.pdf

Ábyrgð skólahjúkrunarfr
Reglubundnar skoðanir
Fræðsla/hvatning/forvarnir
Lyfjagjafir
Lús
Njálgur
Kláðamaur
bottom of page