Námsmat
Mikilvægt er að kynna sér námsmatið vel.
Námsárinu í grunnskóladeild Kerhólsskóla er skipt í þrjár annir og hver önn á sér sínar áherslur í námsmatinu.
Haustönn: Nemendur fá sendar Vörðurnar sínar heim að hausti og kynna sér þær með forráðamönnum sínum. Á haustsamtalsdögum hittast foreldrar, nemandi og kennari og fara yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið, kynna sér sýn hvers um sig og móta næstu skref. Nokkur undirbúningur er nauðsynlegur heima fyrir, fyrir þessa daga og gefa þarf sér góðan tíma vegna samtalsins. Á annaskilum að hausti er það námsmat sem unnið hefur verið sent heim til kynningar.
Miðönn: Á þessari önn er lögð áhersla á formlegt námsmat hvort sem það er gert með sérstökum prófum eða könnunum eða á annan þann hátt sem kennari telur best henta. Nemendur meta hvernig hefur gengið að vinna eftir þeim atriðum sem mótuð voru í Vörðum.
Vorönn: Námsmat þessarar annar er samantekt á vetrinum bæði af hálfu kennara en ekki síður nemenda. Nemendur fá vormatsblað með sér heim og meta hvernig þeir telja að markmið þau sem sett voru í upphafi skólaárs hafi náðst.
Leikskóladeildin hefur undanfarin ár metið Skólafærni en þar eru metnir þættir eins og félagsfærni, hreyfiþroski, líðan, daglegar venjur og fleira. Börn á síðasta ári í leikskóladeild fara í Hljóm 2 próf til að meta hljóðkerfisvitund en hún er undirstaða lestrarnáms. Foreldrasamtöl eru síðan í mars.
Fyrirkomulag námsmatsins
Námsmat skólans er að færast frá hinu hefðbundna/formlega námsmati sem lengi hefur þekkst í íslenskum grunnskólum þar sem próf skipa stóran sess. Oft er um lokamat að ræða – þ.e. þegar áfanganum er lokið fær nemandi eina einkunn e.t.v. með staðlaðri umsögn en getur lítið nýtt sér þá niðurstöðu til þess að bæta sig í þeim þáttum sem voru til prófs. Í stað prófa og lokamats er áherslan nú óðum að færast yfir á leiðsagnarmat sem byggir á því að nemandi viti til hvers er ætlast af honum, hann þekki markmið sín og viti hvert beri að stefna. Lykilatriði í því að virkja nemandann í námi sínu er að gefa honum stöðuga endurgjöf á námsferlinu, láta hann leggja mat á hvernig honum gengur og veita honum leiðbeinandi námsmat þar sem vinna hans nýtist honum í framhaldinu til þess að bæta árangur sinn.